Raggagarður

Raggagarður fyrir alla.

Raggagarður er skemmtigarður fyrir alla fjölskylduna.  Í garðinum eru borð og bekkir  fyrir 88 manns í sæti auk þess sem þar eru þrjú  röragrill og eitt stórt veislugrill sem skipt er í 5 hólf.  Ef nota á allt veislugrillið þarf að hafa samband við umsjónamann þar sem þrifagjald er tekið fyrir notkun á öllu grillinu.  Salernishús er á staðnum með aðgengi fyrir fatlaða.   Í húsinu eru upplýsingar um Raggagarð.  Á veggnum á húsinu er gestabók sem gestir eru hvattir til að skrifa í og baukur sem fólk getur sett í fjáls framlög.  Á neðra svæði  eru leiktæki fyrir börn 2-10 ára.

Fyrir ofan brekkuna eru leiktæki fyrir börn 8-99 ára.   Efst eru svo tvö leiktæki ætluð 12 til 99 ára.  Í Orkulundi eru  þjálfunartæki  fyrir orkuboltana  og eru þau jafnframt  leiktæki fyrir orkumikla krakka og fullorðna.Raggagarður er með 5 mini-golfbrautir hjá Melrakkasetrinu í Súðavík og  eru þar leigðar út kúlur og  golfkylfur.  Smáhús, sem eru eftirlíkingar af gömlum húsum í Súðavík frá síðustu öld, eru einnig í eigu Raggagarðs og eru þau  til sýnis í Álftaveri , framan við Víkurbúðina  í  Súðavík. Húsin eru smíðuð af Auðunni Árnasyni frá Dvergsteini.

F  j ö l s k y l d u g a r ð u r   V e s t f j a r ð a
S ú ð a v í k

Opnaður  6. ágúst  2005

Upphaf fjölskyldugarðsins.

Frumkvöðull að þessum garði er formaður og framkvæmdastjóri áhuga-mannafélagsins um garðinn, Vilborg Arnarsdóttir ( Bogga í Súðavík )
Hún hafði lengi gengið með þá hugmynd að reisa sumarleiksvæði sem ætlað væri til að auka fjölbreytni í afþreyingu fyrir fjölskyldur á norðanverðum Vestfjörðum.

Markmiðið með garðinum er að hlúa að fjölskyldum og efla útiveru og hreyfingu og um leið stuðla að ánægjulegri samveru foreldra og barna. Að halda áfram uppbyggingu Súðavíkur sem ferðamannabæjar og efla afþreyingu fyrir ferðamenn á Vestfjörðum.

Súðavíkurhreppur lagði til lóðina. Heimamenn, sumarbúar, gestir og fjöldi velunnara garðsins á öllum aldri ásamt styrktaraðilum hafa látið þennan draum rætast. Fleiri hundruð klukkustundir hafa verið unnar í sjálfboðavinnu af velunnurum. Allir hafa unnið af alúð og umhyggju við verkið frá upphafi með ýmsu móti.  Sumarið 2010 fögnum við öll fimm ára afmæli garðsins og njótum.

Hugsjónin varðandi garðinn og nafn hans.Raggagarður

Nafnið á garðinum er tilkomið vegna þess að Bogga, frumkvöðull félagsins fór af stað með þetta verkefni og
vinnuframlag sitt til minningar um son sinn Ragnar Frey Vestfjörð sem lést í bílslysi í Súðavík 17 ára gamall, árið 2001.

Garðurinn er vettvangur fyrir ánægjulegar samverustundir með börnum okkar og barnabörnum, þar sem öll fjölskyldan getur glaðst saman. Gleðilegur vettvangur til að hugleiða út á hvað lífið gengur eða hvað sé okkur dýrmætast í lífinu hjá hverjum þeim sem heimsækir garðinn.

Félagið Raggagarður.

Tilgangur félagsins er að standa að gerð, framkvæmd og rekstri garðsins.

Stjórn félagsins:

Vilborg Arnarsdóttir  formaður,  Barði Ingibjartsson,
Sigurdís Samúelsdóttir,  Jónas Ágústsson,  Anne Berit Vikse

Okkar bestu þakkir til þeirra fjölmörgu sem gerðu þetta verkefni  að veruleika.

Verið velkomin og njótið vel