Afhjúpun fimm listaverka Gerðar Gunnarsdóttur myndhöggvara.

Dulheimar

Dulheimar

Huliðsheimar

Huliðsheimar

Bergbúinn

Bergbúinn

Tveir Heimar

Tveir Heimar

Umhyggja sem á svo sannarlega erindi í Raggagarð.

Umhyggja sem á svo sannarlega erindi í Raggagarð.

Sumarið 2014 ákvað listakonan og myndhöggvarinn Gerður Gunnarsdóttir að gefa Raggagarði fimm steinlistaverk eftir hana sem hún vann úr grjóti að vestan.  Auk þess gaf hún 100.000. kr þá til þess ætlaðar að geta sett listaverkin upp sumarið 2015.

Það er búið að vera einstaklega gaman að ganga um með listakonunni og spá og spekulera hvar listaverkin ættu að vera á útivistarsvæðinu.  Það var líka mjög gaman að sjá hvað við vorum samstíga í þeim hugleiðingum miðað við hvað hvert verk hefur að geyma.   Gerður og Grétar Kristjánsson tóku virkan þátt í því að stilla af og setja niður með okkur undirstöðurnar í garðinum tveimur dögum fyrir opnun garðsins.   Listaverkin fimm eru; UMHYJJA, BERGBÚINN, HULIÐSHEIMAR, dULHEIMAR  og TVEIR HEIMAR.  Gerður og Grétar gáfu auk þess Raggagarði 100.000 kr afmælisgjöf af tilefni 10 ára afmælis garðsins.  Það er ljóst að hjarta og hugur þeirra hjóna er meðal annars í Raggagarði eins og fram kom í ræðu Gerðar.

Brot úr ræðu Gerðar 8 ágúst 2015;

Það er mikill heiður að standa hér í dag á þessum fallega stað þar sem náttúran ríkir  í sinni fegurð og stórfengleik. En íslensk náttúra bæði gefur og tekur eins og Íslendingar hafa fengið að kynnast í genum aldirnar og við minnumst þeirra hörmunga sem hér urðu fyrir tuttugu árum og þeirra sem fórust.

En lífið heldur áfram og Íslendingar og einkum Súðvíkingar hafa aldrei gefist upp og munu ekki gera það.

Þessi garður Raggagarður, fjölskyldugarður Vestfjarða,  er dæmi um það. Hér hafa einstaklingar, fjöldi sjálfboðaliða ,sveitarfélag og fyrirtæki  undir forystu Vilborgar  Arnarsdóttur, öðru nafni ´“Bogga Arnars „,eins og hún kallar sig unnið einstakt afrek  sem telja má óð til lífsins.

Ég hef tekið ástfóstri við þennan stað, gömlu Súðavík og Vestfirðina í heild. Náttúran, fólkið  lognið, kyrrðin og fegurðina hafa heillað mig. Sem listamaður hef ég ef til vill aðra sýn á náttúruna en aðrir. Ég sé líf í fjöllum, grjóti og steinum. Og þetta hef ég reynt að túlka. Síðast liðin 10 ár hef ég unnið hér í Súðavík við að höggva út í grjót og túlka það líf sem ég finn í grjótinu. Grjótið er tínt að mestu úr fjöllum á Vestfjörðum.

Það er mér heiður að hafa lagt mitt að mörkum til þess að þessi garður er orðinn það sem hann er og hef  gefið þessi steinverk mín. Ég  vona að þau verði einhverjum til ánægju og yndis.

Ég óska  Súðvíkingum og öðrum vestfirðingum til hamingju með þennan stórmerkilega garð, Raggagarð, fjölskyldugarð  Vestfjarða  og vil biðja Vilborgu að afhjúpa  steinverkin. Ég endurtek að ég tel að Bogga og sjálfboðaliðarnir hafi unnið einstakt afrek. Til  hamingju Súðvíkingar og Vestfirðingar.

Hver er Gerður;

Gerður Gunnarsdóttir myndhöggvari útskrifaðist frá  skúlptúrdeild Myndlista-og Handíðaskólans árið 1993 og stundaði framhaldsnám  í Perúgiu á Ítalíu . Verk hennar eru víða. Mörg  eru í Kína, flest bronsverk og má þar nefna tvö verk í  Qingdao  borg .  Annað er í Menningarmiðstöð Qingdao borgar og hitt í hljómlistagarði  borgarinnar  Stórt útibronsverk er í alþjóðlega höggmyndagarðinum í Changchung í Jilin héraði í Kína,( áður Masjúria ) Hún á ennfremur nokkur verk í Peking og  Bao Ding ,vinabæ Hafnafjarðar Í Kína. Hún fékk verðlaun á Ólympiuleikunum í höggmyndalist sem haldin var  í tengslum við Ólympíuleikana í Peking árið 2008 .Borgarstjórn Perúgia á Ítalíu á verk eftir hana. Hún gerði stórt útibronsverk sem stendur á lóð MS félagsins á Sléttuvegi í Reykjavík. Hún var valin til að gera höggmynd vegna útflutningsverðlauna forseta Íslands árið 2003 sem Samherji hf. hlaut. Verk eftir hana prýða Tónlistaskólann í Garðabæ og verk eftir hana eru í eigu ýmissa fyrirtækja  og einkaaðila á Íslandi. Meðal annars er eitt í anddyri aðalskrifstofu Eimskipa hf.við Sundahöfn. Brjóstmyndin af  Árna Vilhjálmssyni, prófessor og frumherja var gerð fyrir um það bil. 10 árum.   Og nú eru fimm listaverk eftir Gerði á Boggutúni, útivistarsvæði Raggagarðs í Súðavík.

Nánar um listakonuna er á heimasíðu hennar;  www.gerdur.com